top of page

pax*

2017 -

hugleiðing /

verk í vinnslu

Er barátta vænleg leið til að hreyfa við ósjálfbærum kerfum sem standast ekki skoðun?

Verkefnið kynnir til sögunnar sjónarhorn hins ómælanlega og ómælda inn í verkferla og kerfi samfélagsins.

IMG_3899.jpg

Óvissa? 

 

/ birt í vefmiðli Stundarinnar í apríl 2020

 

Lof mér að hrynja

 

/ birt í vefmiðli Stundarinnar í nóvember 2018

Hvernig lítur sá þjóðhagsreikningur út sem tekur mið af auðlindinni manneskju? Hvernig má gangast við mennsku sem náttúrulögmáli?

 

Hvernig má tryggja að mannauður sé heiðraður í verkferlum og kerfum fyrirtækja og stofnanna sem undirstaða fyrirtækisins? Hvernig má hreyfa við kerfum og ferlum - án þess að fara í andstöðu við þau og baráttu? Hvernig má nálgast áskoranir af mildi og samkvæmt eilífri hringrás afls sem er handan hins þekkta en við höfum aðgang að um okkur sjálf sem verandi náttúruauðlind?

 

Fólk um allan heim er sammála um að það sé ekki viðunandi að búa í heimi þar sem krafan er að heilbrigðri skynsemi og innri visku sé hafnað til heiðurs hag- og samfélagskerfi ójafnvægis. Verkefnið byggir því á og leitast við að nálgast hið sammannlega – náttúruauðinn mannfólk.

 

Verkefnið felst í lýðræðisvæðingu í fyrirtækjarekstri sem mögulega leið til móts við jafnvægi í nútímasamfélagi þar sem 1% mannfólks stýrir 99% af verðmætum jarðarinnar þ.m.t. mannauð. Þarna hallar vogin - svo mikið að mögulega er ráð að rýna handan hins mælanlega sem hefur skapað hið sama ójafnvægi með hagvöxt að leiðarljósi í krafti einræktunar og sérhæfingar. Hvernig nálgast fyrirtæki í nútímasamfélagi þekkingu hins ómælanlega - þekkingu hins mannlega og náttúrulega?

      

Í nútímasamfélagi er form fyrirtækjareksturs ríkjandi í öllum rekstri samfélagsins. Þess vegna tel ég mikilvægt að rannsaka hvernig má færa mannlega visku inní þau ferli sem stuðst er við í fyrirtækjarekstri og afmarkaðsvæða mannauð fyrirtækisins. Hvernig liti sú viska út í reynd þegar kemur að ferlum fyrirtækja og ákvarðanatöku? Gæti það verið hagkvæmara fyrir hvers konar rekstur að hlúa að þeim auð sem býr að baki fyrirtækinu og sjá til þess að sjálfbærni ríki varðandi þann auð í allri ákvarðanatöku. Ef litið er á mannauð sem sameiginlega auðlind allra fyrirtækja hvernig má sjá til þess að sú auðlind sé nærð og sjálfbær og geti gefið af sér í leik og starfi?

 

Þegar allar athafnir eru mældar út frá skilvirkni og handan þess sem mælanlega engu skilar erum við þá mögulega að búa til hið ósjálfbæra? Hvað býr í hinu ótakmarkaða sem við getum einungis skynjað en ekki mælt og býr handan takmarkaðs mannlegs hugar? Má bjóða fleiri sjónarhornum en hinu mælanlega hagræna til samtalsins? 

 

Verkefnið felur í sér mótun efnis og aðferðar til að miðla þeirri visku sem t.d. hugvísindi, listir og andleg fræði bjóða sem mögulega leið mót sjálfbærni og heilbrigði fyrirtækja. Ef við horfumst í augu við að samfélag manna hefur mótast í takt við kröfu um mælanlegan vöxt byggðan á mælanlegum vísindum má gera sér í hugarlund að hin ómælanlegu vísindi hafi mögulega mikið fram að færa á vogarskálar jafnvægis í mannlegu samfélagi. Hér er viska hins ómælanlega kynnt sem tæki fyrir fyrirtæki. 

 

Efniðviðurinn byggir á ómældum brunni sem einstaklingar nútímans eru í sífellt meira mæli að sækja í með iðkun af ýmsu tagi. Í verkefninu er litið á „fyrirtæki” sem hina mannlegu auðlind sem yrkir það og starfar innan þess og frá því sjónarhorni er það augljóslega bæði einstaklingunum og fyrirtækinu sjálfu til bóta að gefa hinu mannlega og náttúrulega gaum í öllum rekstri og smíða fyrirtækið í samræmi við sjálfbærni auðlindanna sem knýja það – þar með talið náttúruauðlindina manneskju.

 

Verkefnið minnir á og endurspeglar mikilvægi þess:

 

•           Að skapa því sem ekki verður skilgreint meira rými

•           Að taka ábyrgð á okkur sjálfum og þörfum okkar

•           Að láta ekki hefðbundnar hugmyndir um tíma og skilvirkni takmarka okkur

•           Að leita nýrra leiða við rannsóknir og bjóða leið hugvísinda og lista              með beinum hætti í fyrirtækjarekstri.

 

Leitað verður ráða og óskað eftir sjónarhornum sérfræðinga úr ólíkum áttum og leitast við að koma á beinu samtali og samstarfi við fyrirtæki og stofnanir 

samfélagsins.

 

Áhugasömum er tekið fagnandi.

* í bókunarkerfum flugfélaga er vísað til flugfarþega undir kóðanum PAX sem merkir friður á latínu.

bottom of page